Á sama tíma og það voru fordæmalausar markaðsaðstæður þá hefur framleiðsla fyrirtækisins gengið vel. Aukin þekking, gæði seiða, aðlögun að umhverfisaðstæðum og einstakt starfsfólk hefur leitt það af sér að í ár er framleiðslukostnaður okkar í sjó sambærilegur því sem best gerist í laxeldi.
Undir lok þessa árs náðum við þeim áfanga að klára fyrsta árgang af laxi á eldissvæði okkar í Eyrahlíð í Dýrafirði en þau seiði fóru í sjó sumarið 2019. Einnig hófum við slátrun fyrstu kynslóðar á staðsetningu okkar í Patreksfirði sem eftir aðeins 16 mánuði í sjó náði yfir 6,5 kg, en það er frábær árangur sem eftir var tekið og birt í nokkrum erlendum fagtímaritum um fiskeldi.
Markaðsaðstæður hafa verið erfiðar vegna áhrifa COVID-19. Árið byrjaði mjög vel og var salan á háum verðum, en verð lækkuðu í mars, hækkuðu örlítið um sumarið en svo hafa verið lág verð eftir það. Við gerum ráð fyrir að markaðsáhrifin af COVID-19 muni áfram gæta stóran hluta næsta árs.
Umhverfisskilyrði hér á landi leiða til þess að við höfum tiltölulega stutt tímabil þar sem mögulegt er að setja út sjógönguseiði. Á þessu ári var fyrsta rekstrarárið þar sem við vorum ekki í miklum framkvæmdum við seiðaeldisstöðina og það var jákvætt fyrir framleiðsluskilyrðin og gekk seiðaútsetning vel. Seiði voru sett í sjókvíar á tvær staðsetningar í Dýrafirði og var því lax á þremur staðsetningum í firðinum hluta árs. Fyrstu seiðin voru sett út í byrjun maí og hafa seiði aldrei verið sett út svo snemma árs við Íslandi. Síðustu seiðin voru svo sett út í sjó í október sem er einnig lengsta tímabil útsetninga sem hefur náðst hér við land sem bætir líka nýtingu landeldisstöðvar okkar í Norðurbotni á Tálknafirði ásamt því að nýta sem best þau vaxtarskilyrði sem skapast að sumarlagi.
Fyrir fjórum árum síðan var Arctic Fish fyrsta fyrirtækið hér á landi til þess að hljóta ASC vottun fyrir eldi. Á árinu sem nú líður fékk fyrirtækið staðfestingu um vottun á allri eldisstarfsemi sinni í sjó, en votta þarf sérstaklega hvert eldissvæði. Þá hóf fyrirtækið einnig vottunarferli fyrir lífrænt vottaða framleiðslu samkvæmt EU staðli á árinu.
Umhverfisvöktun hefur verið reglubundin á árinu með góðum niðurstöðum. Botnsýnatökur hafa verið jákvæðar með tilliti til uppsöfnunar sem segir okkur að eldið hafi lítil áhrif á botn og botndýralíf. Lúsavöktun var framkvæmd reglulega meðan hitastig sjávar leyfði og voru tölur almennt verið í lagi og innan þeirra marka sem vottun leyfir, með reglubundnum sveiflum í fjölda eftir árstíma og hitastigi. Þá höfum við þurft að veita fiskum í Dýrafirði meðhöndlun við fiskilús sem náði sér þar á strik í kvíum en sníkjudýrið veldur fiskum streitu og skaðar þá. Fer meðhöndlun fram með fóðurgjöf sem er með umhverfisvænustu meðferðum sem hægt er að veita gegn þessu náttúrlega sníkjudýri. Heilt yfir hefur ástand og heilbrigði fisksins þó verið gott og fallegur og góður fiskur hefur skilað sér í sláturhús.
Arctic Fish tekur þátt í fjölda rannsóknaverkefna á ári hverju og var þetta ár ekki undanskilið. Þar má helst nefna vöktun fyrirtækisins ásamt öðrum eldisfyrirtækjum og rannsóknar aðilum á villtum stofnum laxfiska á Vestfjörðum. Það er gífurlega mikilvægt fyrir eldisfyrirtækin að þekkja umhverfi sitt og er þetta verkefni liður í því. Með vöktun á villtum laxfiskum skapast þekking á heilbrigði þeirra stofna sem eru nær eldinu, sníkjudýraálagi og fleiru. Mikið er einnig lagt í að aðstoða við rannsóknir á hrognkelsum sem éta lýs af löxum í kvíum fyrirtækisins. Mikil þekking hefur skapast á árinu og mun bæta enn í á næstu árum.
Á árinu var fjárfest talsvert í eldisbúnaði, bæði eldiskvíum og kerfisfestingum og þá hafa verið keyptir tveir prammar og einn vinnubátur. Einn af prömmunum bíður færis til að hægt sé að sigla með hann til Íslands og verður afhentur í byrjun næsta árs.
Fyrirtækið hefur endurnýjað mikilvæga þjónustusamninga t.a.m. við Sjótækni sem mun annast eftirlit og skoðanir á staðsetningum, þrif neta í sjó, sinna almennu viðhaldi og þjónustu við sjókvíastæðin ásamt því að leigja út þjónustubát. Þá hefur verið endurnýjaður samningur við brunnbátinn Ronja Carrier út næsta ár, en sá samningur er samstarfsverkefni Arnarlax og Arctic Fish. Ronja Carrier er bæði hægt að nýta til að flytja sjógönguseiði á eldissvæði sem og sláturfisk í sláturhús í landi.
Í nóvember var tilkynnt að Arctic Fish hyggur á skráningu á hlutabréfamarkað. Markmiðið með skráningunni er að auka hlutafé félagsins til þess að geta haldið áfram að fjárfesta í vexti fyrirtækisins. Á sama tíma vonast fyrirtækið eftir því að fjölga innlendum hluthöfum í félaginu. Arctic Fish vill halda áfram að byggja upp sterkt og öflugt fyrirtæki á Vestfjörðum og skráningin gerir félagið gegnsærra og opnara fyrir fjárfesta.
Fjárfestingaáætlun félagsins er í meginatriðum þríþætt. Vöxtur í sjóeldinu á komandi árum kallar á fjárfestingar í seiðaframleiðslu. Með auknum fjölda útsettra seiða mun sjóeldið vaxa og fjárfestingar í lífmassa í sjó verða talverðar. Þessi aukna framleiðsla í sjó mun kalla eftir aukinni getu til að slátra og vinna laxinn og því þarf að fjárfesta til þess að geta unnið laxinn með samkeppnishæfum hætti. Varðandi framkvæmdir til að auka seiðaframleiðslu þá er áætlanagerð í gangi auk undirbúnings vegna skipulagsvinnu. Varðandi vinnslu á slátrun þá er áætlanagerð á frumstigi og ekki búið að taka endanlegar ákvarðanir en búast má við að ákvörðun verði tekin á næsta ári. Vinnsla fyrirtækisins verður því með óbreyttu sniði árið 2021 og verður laxinn unnin í samvinnu við Arnarlax á Bíldudal.
Þrátt fyrir erfiða markaðsstöðu og ýmsar áskoranir á árinu sem nú er að líða er okkur þakklæti í brjósti við enda þess. Þakklætið er fyrir þann mannauð sem fyrirtækið býr að og þá þekkingu sem býr innan hans, en án elju þeirra og þrautseigju væri Arctic Fish ekki neitt. Þá ber einnig að þakka fyrir þau sterku og samheldnu samfélög sem fyrirtækið starfar í en án þeirra samstöðu og stuðnings væri þungt að draga laxeldið áfram í uppbyggingunni. Það er enn töluvert eftir í uppbyggingu okkar á Vestfjörðum og hlökkum við til að vaxa með okkar góða fólki, bæði starfsfólki og samfélaginu öllu.
Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri Arctic Fish
Neil Shiran Þórisson fjármálastjóri Arctic Fish