Arctic Fish styrkir þjálfun leitarhundar

December 1, 2021

Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri hefur nú fengið liðsauka í hundinum Aski sem Konráð Ari Skarphéðinsson á. Eftir flóðin í Janúar 2020 fór fram rýni hjá Björgunarsveitinni á störfum hennar í þeim aðstæðum sem komu upp. Ein af þeim hugmyndum sem kom úr þeirri rýni var sú að sveitin þyrfti að hafa björgunarhund til að aðstoða við leit í flóðum og að týndu fólki á víðavangi.

Konráð Ari  hafði mikinn áhuga á að þjálfa upp sinn hund og úr varð að hann hóf þjálfun strax á vormánuðum 2020. Fljótlega kom í ljós að þetta þjálfun á hundi vær kostnaðarsamt ferli sem og það að viðhalda þjálfun, bæði eru námskeið viða um landið og úttektir sem þeir félagar Konráð og Askur þurfa mæta á. Einnig á björgunarsveitin einungis einn bíl og þurfti Konráð að kaupa sér bíl sem sveitin aðstoðar hann við rekstur á. Þegar allt þetta er tekið saman er kostnaður við verkefnið um 800.000 kr. á ári.

Í síðustu viku var handsalaður stuðningur Arctic Fish við verkefnið en félagið mun standa straum af þessum kostnaði næstu árin.

„Það er mjög jákvætt fyrir okkur að koma að þessu verkefni. Við erum með starfsemi á Flateyri sem mun aukast á næstu árum. En það eru líka margir starfsmenn okkar búsettir á Flateyri. Það að hafa öfluga Björgunarsveit sem getur komið okkur og starfsfólki okkar til aðstoðar skiptir okkur miklu máli“ segir Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish.

„Við erum afar þakklát fyrir þennan stuðning sem skiptir okkur miklu máli. Styrkurinn mun koma sér gríðarlega vel í að halda úti snjóflóðahundi sem eykur öryggi íbúanna til muna.“ segir Magnús Einar Magnússon formaður Björgunarsveitarinna Sæbjargar.

Related Posts