Lögreglan á Vestfjörðum hefur tilkynnt okkur að rannsókn á stroki úr kví okkar í Patreksfirði hafi verið hætt. Ekki sé grundvöllur til að halda henni áfram.
Frá því að strokið átti sér stað í ágúst, höfum við hjá Arctic Fish lagt í mikla vinnu við að endurskoða vinnulag okkar með það að markmiði að lágmarka áhættu á stroki.
Meðal annars höfum við ákveðið að hætta að nota þá tegund af fóðurdreifurum sem ollu gatinu. Við erum að innleiða nýtt rafrænt gæðakerfi og viðhaldskerfi sem bætir vinnubrögð. Aukin áhersla verður á þjálfun starfsfólks og farið hefur verið yfir framkvæmd ljósastýringa til að koma í veg fyrir kynþroska.
Þá höfum við búið til nýtt starf í fyrirtækinu, starf framkvæmdastjóra eldis og fengið til liðs við okkur í það starf John Gunnar Grindskar sem hefur áratuga reynslu úr fiskeldi hjá móðurfyrirtæki okkar í Noregi.
Við höfum einnig sett upp áætlanir og tryggt okkur búnað með það að markmiði að halda lúsaálagi niðri.
Allar þessar aðgerðir miða að því að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni. Lax alinn í sjó er með hvað lægst kolefnisfótspor af framleiddu próteini sem völ er á. Það er því mikilvægt til að tryggja heiminum fæðu að nýta bláu akrana, sjóinn til að framleiða matvæli. Ein af niðurstöðum COP28 var að það þyrfti að auka sjálfbært sjóeldi um 75% til ársins 2040. Í því liggja gríðarleg tækifæri fyrir samfélögin hér á Vestfjörðum og Ísland allt. Við í Arctic Fish ætlum að halda áfram að taka þátt í þeirri vegferð og rísa undir því trausti sem okkur hefur verið sýnt með því að fá aðgengi að fjörðum Vestfjarða.